Síðustu sýningardagar

Um verkin á sýningunni

Pappírslágmyndir

Erlendir listamenn eins og Gustav Klimt, Charles Rennie Mackintosh, hjónin Carl og Karin Larsson, Jockum Nordstrom, og Hundertwasser blása mér oft inn nýjar (eða gamlar?) hugmyndir. List þeirra og hönnun þykir mér full af gleði, litum, fallegum línum, formum og skrauti og til þess fallin að láta manni líða vel. Ég hef gaman af að skreyta og hef unun af að raða litum, formum og hlutum. Ég er heilluð af kviksjám og get gleymt mér tímunum saman við að horfa í litadýrðina og síbreytilegar myndirnar sem þar birtast. 

Kyrrsettar Kviksjár eru origamimyndir gerðar úr japönskum pappír. Ég sanka að mér ósköpunum öllum af pappír og raða síðan saman litum og mynstrum.  Ég brýt pappírinn í lítil form sem ég kræki saman í hring, bý til ,,kviksjá” og festi á pappísklæddan striga.

 

Þegar ég skoða landakort fer hugurinn af stað í ferðalög. Þýtur stundum hratt og fer langar vegalengdir á andartaki. Fer sér oftar hægt, staldrar við, og ég týni sjálfri mér á milli skemmtilegra örnefna. Landakortin gera mér kleift að strjúka fingri yfir fjöll og dali, teikna hringi utan um læki og fossa, og þegar ég sker kortin í hluta og brýt þau saman í myndir þá get ég flutt fjöll úr stað og fært heilu stöðuvötnin á milli landshluta eins og ekkert sé.

Landbrot geri ég úr íslenskum (mest megnis) og erlendum landakortum sem ég brýt í origamiform, lími saman í hringmynstur og sauma síðan, eða lími, á strigaklædda blindramma.

Veggskraut og Skrautkringlur

Ég hef lengi haft áhuga á mynstrum, sérstaklega hringmynstrum. Í einni heimsókn minni á byggðasafnið heima í Skógum teiknaði ég upp nokkur slík mynstur sem þar prýða útskornar öskjur. Þessar teikningar urðu kveikjan að akrýl- og vatnslitamyndunum sem ég kalla Veggskraut og Skrautkringlur. Síðan þá hef ég svo tekið eftir sambærilegum og svipuðum útskurðarmynstrum á ferðalögum mínum, bæði innalands og utan, og safnað í skissubækur mínar. 

Ég teikna upp gömlu mynstrin, breyti örlitlu hér og þar, og smám saman verða til ný ,,gömul” mynstur. Útskurðargripirnir eru lang oftast ómálaðir en ég leyfi mér að velja mynstrunum liti. Gamalt íslenskt handverk sem geymir hafsjó af mynstri og alls kyns skreytingum er mér oft innblástur. Mér finnst þetta handverk vitna um þörf fólks fyrir að skreyta og fegra sitt nánasta umhverfi, hvort sem efnin voru mikil eða lítil. Hagleiksfólk liðinna tíma lagði alúð, tíma og vinnu í að skreyta umhverfi sitt og ég lít til þeirra sem fyrirmynda. 

Veggskraut eru máluð með akrýllit á tunnulok úr tré, en Skrautkringlur eru blekteikningar, vatnslitaðar og límdar á málaðar trékringlur.

 Og svo er einn fugl.